Tegundir peningaspila

 

Mikilvægt er eð hafa í huga að allri spilun fylgir áhætta. Hvers vegna? Niðurstaðan er alltaf að mestu eða öllu leyti háð tilviljun, og þú getur því aldrei verið viss um að vinna.

Á Íslandi eru fjölmargar tegundir peningaspila

Bingó

Spilarar kaupa bingóspjald og áður en leikurinn hefst greinir kynnir frá hvernig leikur skuli spilaður. Til dæmis að það þurfi ákveðið margar línur eða ákveðin mynstur talna á bingóspjaldi (t.d. T eða Z). Kynnirinn dregur svo út eina kúlu í einu, kallar upp númerin, og sá/sú sem fyrstur fær allar tölur réttar hrópar „bingó“.

Happdrætti

Í happdrættum kaupa spilarar númeraða miða. Sum happdrætti eru áskriftarhappdrætti en í öðrum er hægt að kaupa stakan miða. Misjafnt er hvort dregið er úr öllum miðum eða einungis seldum miðum, en dregið er á fyrirfram gefnum tíma. Sá vinnur sem er með miða með því númeri sem dregið er út.

Íþróttaveðleikir

Í íþróttaveðleikjum leggur spilari peninga undir niðurstöður íþróttakappleikja. Til eru nokkrar gerðir íþróttaveðleikja. Sá leikur sem best er þekktur hér á landi er 1x2 þar sem spilarar „tippa“ á niðurstöður 13 leikja í enska fótboltanum eða á niðurstöður 13 leikja víðsvegar í Evrópu. Spilari þarf að „tippa“ rétt á niðurstöður allra leikjanna til að hljóta aðalvinninginn. 

Einnig er hægt að veðja á niðurstöður mismunandi íþróttakappleikja (t.d. í fótbolta, handbolta, kappakstri o.fl.) og er þá fyrirfram búið að reikna út ákveðna vinningsstuðla fyrir hvern leik og byggir vinningur á margfeldi vinningsstuðla þeirra leikja sem spilari veðjaði rétt á. Hér á landi kallast þessi leikur Lengjan. Mismunandi er hversu marga leiki þarf að spila hverju sinni, suma leiki má spila staka en algengt er að spilari þurfi að veðja á úrslit a.m.k. þriggja leikja hverju sinni.

Að lokum má geta þess að með tilkomu Netsins er nú hægt að veðja á niðurstöður íþróttakappleikja á meðan á þeim stendur. Í byrjun leiks liggja fyrir tilteknir vinningsstuðlar sem síðan breytast eftir því sem leikur vindur fram og því kunna vinningsstuðlar að vera breytilegir eftir því hvenær í leiknum spilari leggur fé sitt undir. 

Lottó (Talnagetraunir)

Í talnagetraunum velja spilarar ákveðin fjölda talna á þar til gerðum seðli. Útdráttur leiðir í ljós vinningstölur (t.d. fimm tölur dregnar af 40 mögulegum), og vinninginn hljóta þeir sem voru með sömu tölur á miða sínum og í útdrættinum. Sá sem hefur allar tölurnar réttar hlýtur vinningspottinn en einnig eru oft smærri vinningar í boði fyrir færriréttar tölur. 

Póker

Í póker er notast við spilastokk og leikurinn byggir á vissum reglum, sem geta verið mismunandi eftir því hvaða tegund pókers er spilaður. Sú tegund pókers sem nýtur mestra vinsælda í dag nefnist Texas Hold'em. Í öllum tegundum pókers gildir að spilarar leggja lágmarksfjárhæð í pott (á borði) og geta síðan bætt í hann þegar þeir hafa fengið spil á hendi og lagt mat á vinningslíkur þeirra. Þegar öllum veðumferðum er lokið hlýtur sá pottinn sem annað hvort telst hafa bestu spilin á hendi eða að aðrir spilarar hafi hætt veðmálum áður en síðasta umferðin fór fram. 

Í tengslum við Texas Hold'em er einnig spilaður mótapóker en þar greiða spilarar ákveðna upphæð fyrir þátttöku og síðan er spilað þangað til að aðeins einn stendur uppi sem sigurvegari. Oftast er heildarfjárhæðinni skipt á nokkur sæti en sá sem sigrar ber mest úr býtum. 

Skafmiðar

Skafmiðar geta verið með ýmsu móti, en um þá gildir að prentað er ákveðið upplag af skafmiðum og mismunandi fjöldi smárra og stærri vinninga er að finna á tilteknum fjölda miða í hverri prentun. Meiri líkur eru á því að fá smáan vinning en stórann. Skafmiðahappdrætti fer síðan þannig fram að spilari festir kaup á miða og hreinsar af skaffleti (skefur) miðans til að athuga um vinning. 

Spilakassar

Það eru til margar tegundir að spilakössum, en flestir eiga það sameiginlegt að spilari leggur peninga undir ákveðinn fjölda lína og vinnur ef viss tákn koma upp í þeirri línu/línum sem lagt var undir. Vinningslíkur eru breytilegar eftir leikjum, en almennt gildir að meiri líkur eru að vinna oftar litla vinninga en að fá þann stóra. Vinningshlutfall í spilakössum hérlendis er að lágmarki 89%.

Veðmál

Veðmál geta verið af ýmsum toga og fara fram milli tveggja eða fleiri. Spilarar veðja eftir sannfæringu sinni og vonast eftir ákveðinni útkomu atburðar. Til dæmis, hvaða stjórnmálaflokkur vinni næstu kosningar eða hvort það verði hvít eða rauð jól. Einnig eru veðmál algeng um niðurstöður íþróttaleikja sem spilarar taka þátt í sjálfir. Þar má nefna að algengt er að menn leggi fé undir um niðurstöður í golfi, körfubolta, keilu o.s.frv.

Veðreiðar

Í slíkum veðmálum leggur spilari fé undir ákveðinn hest eða knapa í þeirri von að sá hestur sem veðjað er á, skili sér fyrstur í mark. Sá vinnur sem veðjar á réttan hest eða knapa.

Spilun á veraldarvefnum

Fullyrða má að allar tegundir peningaspila sem fjallað var um hér megi, í einhverju formi (hvort sem er löglega eða ólöglega), finna á veraldarvefnum.